30. janúar 2008

Á skíðum skemmtég mér?


Andleysi lýsir helst síðustu dögum mínum. Ég kemst með glans í gegnum daginn, þ.e. sinni vinnu, börnum, manni, hef í þau síðarnefndu mat og hrein föt en ekki er smuga að ég nenni að þvo eða þrífa. Eða að ég finni eitthvað gáfulegt að skrifa. Eða segja mömmu einhverjar fréttir þegar við tölum saman í tölvunni yfir dynjandi barnaefni sjónvarpsins og jafnvel fréttir á Rás 1. Allavega kvartar mútta greyið yfir áreitinu.

EN, ég veit hvað ég ætla að gera í vetrarfríinu sem byrjar á öskudaginn. Ég ætla að skella mér norður til Akureyrar á þriðjudaginn í þeim tilgangi að ferja Ingu svo hún megi njóta Öskudagsins þar, undir leiðsögn Kristbjargar Tóta- og Birgitardóttur og Silju vinkonu hennar. Á sjálfan öskudaginn fer ég með drengina á leikskólaballið (hólímólí, ég hef ekkert hugsað um búning fyrir mig!) og skelli mér svo aftur norður til að nálgast frumburðinn. Og fjárfesta í skíðabúnaði á börn og móður. Svo næstu daga verð ég náttúrulega að nota búnaðinn!

Mynd dagsins: hélt ég ætti gamlar myndir frá Kerlingarfjöllum en í staðinn rakst ég á eina góða af okkur John og Matta í Noregi árið..... 1982 held ég. Það var á síðustu öld.

25. janúar 2008

Æi! Sjúkk! Æi! Sjúkk

Jújú, auðvitað er maður ögn spældur að komast ekki suður, en mér finnst ég hafa grætt heila helgi! Tilhugsunin um að eyða ómældum klukkustundum í hægfara bíl í kafaldsbyl með einum manni og þremur börnum, var ekkert sérstök. Eiginlega hryllileg. Og í staðinn fyrir þetta tilbúna fangelsi (þetta með bílinn og snjóinn og börnin og allt það) fæ ég að vera heima hjá mér og taka til hendinni, þurrka af u.þ.b. 2 kg af ryki, ganga frá Hreinþvottafelli, finna gólfið aftur, skrúbba verstu blettina af því... Kannski maður ætti bara að láta sig gossa suður á bóginn.

Las í Nat´l Geographic að hátt í einn fjórði háskólanema í Bandaríkjunum nota Ritalín og önnur athyglisbrestslyf til að skerpa á minni og athygli.

20. janúar 2008

Ó þessir englar!

Æi hvað lífið er yndislegt - þegar það er gott. Þriðji sonurinn er hjá okkur og eins og getur gerst hafa ýmis mál s.s. klögu- og slagsmál, eignarhaldságreiningur, óvægin gagnrýni, uppnefningar, pirringur ofl. komið upp á. Á þeim stundum stendur maður í stöðugum sættaviðræðum og/eða skömmum og maður verður misvongóður um að hægt sé að sætta stríðandi fylkingar. En nú eftir hádegi hef ég farið í langa sturtu, fengið mér svo kaffi og súkkulaði og setið við tölvuna án þess að skipta mér af þessum elsku ormum. Þau eru nefnilega í húsaleik inni í aukaherbergi, þar stjórnar Inga ströngum skóla þar sem drengir þurfa að draga til stafs. Ekki heyrist píp - nema leiðréttingar kennarans. En bittinú, bætist nemandi í hópinn, Sólgunnurin komin og þá leggja nemarnir fljótt niður skólabækur. Hljóðstyrkurinn eykst með hverri mínútu með tilkomu Þórgunnar og kennarinn býr sig undir flótta suðreftir.


Í gær bökuðu Inga og Eymundur djöflaköku sem varð að fá djöflaandlit. Svona til að útskýra skreytingu á kökunni og andlitin í kring.


P.S. Takk Guð og gaddur fyrir æðislegt, almennilegt, ekta vetrarveður. Höfum þetta svona áfram.

15. janúar 2008

Ha? Ertað tala við mig?


Ég held ég sé mögulega með einhverja þroskafroska-röskunarheilkenni. Suma dagana virðist ég ekki hugsa um neitt. Sest fyrir framan tölvuna, til að skrifa einhver rakin gullkorn sem spretta upp úr mínum stórfenglega heila. En ekkert kemur, þetta er svona svipuð tilfinning og að opna goslausa gosflösku = Zh. Ekki PZZZZZZZZZZHHHHHHHH!!!!!!


Ég ætla bara að halda áfram að hugsa um árshátíðina, nemendur, kennslu, börnin og manninn, námskeið, kvöldmat, innkaup, Sögur úr síðunni, þrif, þvott... Set svo aðra (af tveim, já) myndina sem var tekin í 4 ára afmælinu á sunnudaginn.

12. janúar 2008

Hm... hvað skal segja?

Æi, ég hef opnað þessa síðu reglulega síðustu daga en ekkert hefur viljað skrifast á skjáinn, því ég hef ekkert verið að hugsa um neitt sem mætti rata út á hið víða net. Þó get ég talið upp nokkur atriði sem eiga eitthvert pláss í hugsunum mínum:
  • Árshátíð Varmahlíðarskóla á föstudaginn 18. janúar - minn frábæri 8. bekkur æfir á fullu leikrit sem er að mestu fimleikasýning. Sú minnir á árshátíðir fyrri ára þegar einmitt fimleikarsýningar voru plássfrekar, nánast allir í skólanum fóru handahlaup, allavega í það minnast kollhnís og sumir hoppuðu í hringi af trampolínum. Þetta verður að sjálfsögðu langbesta atriðið. Að mínu mati.
  • Afmæli litla drengsins míns - sá verður 4 ára á mánudaginn. Ótrúlegt. Ég á ekki lengur lítið barn. Ekki það að klukkur klingi, en ég finn samt fyrir örsmárri eftirsjá af ungbarna-aldri afkvæma minna. Á morgun verður haldið upp á herlegheitin, ég vona að drengurinn verði ekki spældur þegar allir gestirnir eru mættir, því þrátt fyrir margendurteknar ítrekanir verður ekki öllum strákunum á deildinni hans boðið.
  • Undurfallegt veður í dag og síðustu daga - himininn sýnir ný listaverk á hverjum degi, með aðstoð fjallanna.
  • Söngprógram Karlakórsins Heimis helgað Stefáni Íslandi - komst ekki á þrettándahátíðina vegna stórafmælis Birgit á Akureyri, en ég VERÐ að komast á þessa tónleika. Af hverju? Tjah, mannstu Eva Rós eftir Stefáni þegar hann bjó gamall maður fyrir ofan ömmu og afa á Háaleitisbrautinni? Hann á það örugglega skilið að ég kynnist annarri hlið af honum en maður gerði á Háó. Blessaður maðurinn.
  • Nýtt ár og nýir tímar - þetta ár skal einkennast af bullandi bjartsýni og jákvæðni!

8. janúar 2008

Ekki - meira súkkulaði, takk.

Þvílíkt afrek, í gær hélt ég mig frá sykri í heilar - hvað var það nú langt? - 12 kl.stundir! Já, í dag entist ég til um 2 leytið.... Á þessu sykurstigi máls sé ég ekki alveg hvernig ég á að passa aftur í allar buxurnar mínar á næstunni. Ætli ég verði ekki að fara stunda þessar stöðugu gólfæfingar eins og börnin, þau gera ógrynni af krefjandi líkamsæfingum hér inni. Allt frá kollhnísum og handstöðum í eltingaleiki í kringum og upp á húsgögn. Ég er viss um að súkkulaðikeppirnir rynnu af mér.

4. janúar 2008

Í aldanna skaut..

Gleðilegt árið og allt það og þá er það frá. Ekkert markvert gerist þessa dagana, mamma farin, skólinn byrjaður á ný, sem og leikskólinn, hrútarnir farnir að hægja á sér... Jú annars stefnir í stórmerkan atburð. Eftir 10 daga á Gunnar nokkur Einarsson fjögurra ára afmæli. Og mikið hlökkum við öll til, þó síst Davíð sem vill alls ekki að piparkökuhúsið verði etið í afmælisveislunni. Og ég sem ætlaði að spara mér baksturinn.