27. febrúar 2009

Öskudagurinn æðisgengni

Jæja, börnin höfðu það í gegn að eyða öskudeginum á Akureyri. Í fyrra buðu Kristbjörg barna- og lambapía og Silja vinkona hennar, Ingu á öskudagssöngnammirall og voru strákarnir lengi að jafna sig yfir höldupokunum af nammi sem Inga vann sér inn þá. Birgit lónseraði okkur um allan bæinn (þvílíkur lúxus!) og myndaði okkur í bak og fyrir.

Söngurinn var nokkur sigur fyrir Einarsbörn. Meiraðsegja söng Davíð aleinn í Tiger fyrir framan helling af krökkum og búðarfólki - allt gert fyrir nammi.

Og þá eru það búningarnir: Gunnar var að sjálfsögðu Spæderman, Inga fuglahræða í heimagerðu og Davíð bófi.


Íolinn var óperusöngkona í kjól af Kristbjörgu, í hári og kápu af Birgit og í skóm af mömmu.

19. febrúar 2009

Daginn lengir

Fátt hefur gerst síðan síðast, nema jú þorrablót er afstaðið og þar með heilu trogin af tíma sem ég hef aflögu finnst mér. Ég hef tekið ýmis verk að mér sem annars hafa setið á hakanum í mettíma, t.d. dró ég fram saumavélina og stytti á mig buxur sem ég keypti í síðustu suðurferð.

Davíð sýndi vélinni mikinn áhuga og vildi prófa. Mér datt ekkert annað í hug en að láta hann sauma saman tuskudruslu. Þvílík snilldarhugmynd!, hann hefur saumað lungann af tuskunum saman og notagildi þeirra hefur snaraukist. Meinaða. Augnskrautið á drengum eru nýju fjarsýnisgleraugun mín. Já, næst er það göngugrindin. Strikið á enni Davíðs er svo þriggja spora gatið sem hann fékk sér í síðustu viku.


Í morgun komu Flugumýrarhjónin með hana Matthildi samkvæmisljón og fyrirsætu, en sú er orðin fimm mánaða. Ó, þvílík fegurðardís!


Eymundur Ás og bekkjarfélagar hans settu upp Ávaxtakörfuna í Bifröst í dag. Y-hyndisleg skemmtun. Ásinn var annar sögumaðurinn, las rullur sem hefðu dugað 4. bekking, og leiklas með tilþrifum. Ó þetta var svo gaman, að horfa á 20 6 ára krakka skila af sér æfðum textum og söng, slást um hljóðnema, reyna að halda það út að standa í röð - osfr, osfr, osfr.

6. febrúar 2009

Tautað í Tungu

Mikið heiftarlegt væl var þetta í mér nú síðast! Hvað með það þó ég viti ekki hver lítur á bloggið eða hvort nokkur maður geri það yfirleitt? Það er sannarlega ekki skylda nokkurrar lifandi veru að lesa það sem ég læt frá mér á vefinn, hvort sem ég skrifa einu sinni í viku eða mánuði. Og ekki er ég sú allra duglegasta, með mínar u.þ.b. mánaðarlegu færslur. Annars hlýtur bloggheimur allur að liggja í flensu (ekki bara ég og Sigga í Miðhúsum), því þær síður sem ég lít ætíð reglulega á - Sigga mágkona og Jóna Ágústa Einhverfs-móðir - hafa tekið sér óvenju langa pásu. Nema þær séu bara fluttar á Fésið?

Að öðru, er að skríða saman, orðin hitalaus og sef styttra en hálfan sólarhinginn. Hef mestar áhyggjur af hvernig maður á að endurstilla svefninn á 7 tíma rútínuna eftir þessa flensu.

Að sjálfsögðu set ég eina mynd. Hún er ekki splunkuný, örugglega hundgömul í hugum drengjanna á henni því þeir eru nú komnir á sjöunda ár. Davíð ætlar nefnilega að gista hjá Eymundi Ás í nótt (og hefur varla talað um annað í heila viku). Myndin hinsvegar er frá apríl 2004. Ó hvað þetta eru fallegir drengir.

3. febrúar 2009

Hvar er andinn? Hvar í #$%& er hann?

Þetta fer að verða soldið andlaust hjá mér. Ég þarf að viðurkenna eitt fyrir þessum tveim blogglesendum mínum: ég tékka alltaf reglulega á síðunni hvort einhver hafi kommentað - og ég sem vildi láta alla halda að mér væri slétt sama!! Verð að fá mér teljara sem virkar. En, myndir:

Dagný Michelle og systursonur min Ásgeir. Hrikalegur sjarmöör. /My sister and her charming 5 year old Ásgeir.


Við Eva Rós á leið í kirkjugarð./My cousin Eva Rós and I.



Um helgina var geggjað útiveður, nær allar vetrarflíkur notaðar og slatti af skíðagleraugum með. /I took the kids to the North Pole this weekend. They enjoyed it, especially the penguins.


Börnin komast reglulega í myndavélina. Davíð sumsé tók þessa./Davíð photographing his siblings.