27. apríl 2008

Myndavélin fundin

Og ég sem hélt hún væri almennilega týnd, en þá var hún bara undir stöflum af drasli í skenkskúffunni. Dæmigert. khbniuy hukfub ngy vugyvjmu ygunm cjvgkhybvchkuo8o, segir Gunnar.

Hér er allt með friði og spekt, drengir fyrir framan barnaefnið og Inga með pabba sínum í húsunum. Niðri í bragga lúrir ein þrílemba, sú fyrsta sem ber eftir að lambadrottningin kom í heiminn. Ég fór með strákana niðrí bragga í gær til að hitta lömbin og kannski gera eitthvert gagn með Einari, sem var að sprauta ærnar. Þeir sátu þrír strákarnir í garðanum með eitt lamb í einu og léku sér við það. Ætli litla loðna fjölskyldan sé ekki enn að jafna sig eftir eltinga-, bófa-, ofurhetju- osfr.leikina sem lömbin lentu í.

Hér eru svo nokkrar myndir frá helginni, nema skíðamyndin - hún er af Gunnari og Stefáni Inga á Höskuldsstöðum. Sá síðarnefndi tók Gunnar að sér allan skíðadaginn, þó svo ég marghvatti hann til að hvíla sig á pjakknum. Gunnar kvartaði ekkert.




17. apríl 2008

Enn einni vikunni að ljúka. Hátindur þessarar viku er án efa að í dag hengdi ég út þvott sem þornaði á snúrunum. Hvað getur verið yndislegra en blaktandi þvottur á snúru í fyrstu almennilegu vorsólinni?
Nú, heimsókn Dorritar og fylgdarliðs í skólann á þriðjudaginn tókst afar vel. Davíð fór í leikskólann til þess eins að sjá forsetahjónin, en Gunnar harðneitaði og vildi heldur sofa út hjá pabba sínum.
Ég hef verið með hálfan hugann í Reykjavík heima hjá ömmu Nónu þar sem móðurættin stendur í stórendurbótum á íbúðinni. Á svona stundum er svolítið erfitt að sitja hérna fyrir norðan og rétta ekki einu sinni litla fingur til aðstoðar.
Davíð er myndasmiður vikunnar. Þ.e. Vikunnar. Ein myndanna sem hann tók var valin til að skreyta matgæðing vikunnar. Óttalegur kjáni var ég að senda ekki nafn ljósmyndarans með myndunum!
Nú er einn af þremur þáttunum mínum að byrja, Dirty Sexy Money /hinir eru Kiljan og Jens Dreki). Gottagó. Bæjó.

11. apríl 2008

Hratt flýgur stund

Jesverðah, þessi vika minnti á eldflaug! Þvílíkur hraði á tímanum sumar vikurnar, ég er hrædd um að næstu aldamót verði upprunnin áður en ég veit af. Í morgun uppgötvaði ég að föstudagur væri runninn upp og helgin að skella á. Sem var að mörgu leiti gott, þá aðallega vegna þess að við börnin stefndum á skíði - og fórum. Ég skal ekki segja of mikið, lesendur eru örugglega orðnir saddir af skíðaumfjöllun. En mikið er þetta yndisleg íþrótt og ómetanlegar samverustundir hjá okkur fjarkanum.

Gærdagurinn var helgaður tímaritinu Vikunni. Var beðin um að vera matgæðingur blaðsins, sem var ekkert mál. Ég bakaði bara biscotti/dýfikökur, tók slatta af myndum og ætlaði svo að senda. Nema að vikan býr einungis yfir netföngum sem virka ekki og þurfti því þá margar, margar atrennur til að senda myndirnar. Það tókst loks í morgun og eftir nokkra daga verður spennandi (eða ógnvekjandi!) að sjá hvaða myndir Vikunnar fólk hefur valið til að setja í blaðið. Ætli það verði þessi?

7. apríl 2008

Lágdeyða í riti

Þetta eru deyfðardagar. Ekki svona almennt í lífi mínu, mér finnst ég hafa nóg að gera með bæði vinnu, fjölskyldu, skíðin okkar (ohhhh ég er svo glöð að hafa byrjað aftur - hef ég sagt það áður?), félagslíf.... En suma daga finnst mér ekkert eiga við á þessari bloggsíðu. Hvað skal þá segja? Hvað hefur gerst?
  • Sko, Harpa er farin af landinu.
  • Ég frétti af fyrirhugaðri Flórídaferð Haraldsdætra í tilefni stórafmælis mömmu. Ég má víst fara með ef ég uppfylli nokkur skilyrði: fæ mér gerfineglur, tek upp reykingar, drekk kampavín og fæ mér pinnahæla. Ég er að íhuga málin.
  • Stefnir í að ég verði flísalaus vegna skólamósaik-verkefnisins en einnig vegna þeirrar ömurlegu tísku í flísum á Íslandi, því flísabúðir eiga ekkert nema hvítt, svart, grátt, ljóshvítt, drappað, dökkhvítt...
  • Mig dreymdi í annað sinn að brúnn skógarbjörn væri á eftir mér og mínum. Hvað þýðir það? Er ekki einhver þarna úti sem ræður drauma?