Svona leit hún Inga út fyrir nákvæmlega 9 árum, nær 11 merkur og 40-og-eitthvað sm. Mér finnst svo skrítið að sjá þessa mynd (önnur í röðinni sem var tekin af henni), því þegar hún sefur er hún alveg eins .. kannski bara aðeins stærri.. og með meira hár... og fötin passa aðeins betur.Í dag mættu allar stelpurnar í 4. bekk, 11 með afmælisbarninu. Valdi bílstjóri ferjaði allan skarann heim, en skólabílstjórar héraðsins eiga orðu skilið fyrir einstök liðlegheit þegar kemur að afmælum. Valdi kom einfaldlega á stærri rútu og reddaði málum.
Þegar stúlkan mín var yngri hafði ég alltaf örlitlar áhyggjur af ,,stelpumenningunni", þ.e. ofuráherslu á umönnunar- og fínerísdóti og búningum. Á leikskólanum á öskudag, sem dæmi, voru nær allar stelpurnar prinsessur, álfadísir eða eitthvað þvíumlíkt. Hvar endar þetta?!, hugsaði ég.
Myndin að neðan sýnir það. Þrír sjóræningjar, ránfugl og svín, kínverji, kónguló, Ninja, drottning (sú gleymdi búningi en fékk lánað hjá Ingu) og ,,mamma-þegar-hún-var-ung (þessi með bindið). Og hvað var svo afmælisbarnið? Nú, dvergur. Í fötum af móður sinni. Á maður að taka þetta til sín?