28. febrúar 2008

Amma Soffía

Loksins sinnti ég tilfinningaskyldum og hringdi í föðurömmu Soffíu. Hún er nú til húsa á Landakoti, fer þó stundum heim um helgar. Ég sagði börnunum að amma Soffía myndi orðið ekki allt, hún til dæmis man ekki hvað þau heita lengur. Ég veit það, sagði Davíð, hún kallaði mig Óla síðast þegar við fórum í heimsókn. Og ég sem var að velta því fyrir mér hvort þau ættu að vita svona lagað, að amma væri orðin óttalega gleymin. Í samtali okkar ömmu sagði hún mér að hún ætti herbergisfélaga. Ég spurði hvort þetta væri ekki ágætis kona -jújú, sagði amma. Eruð þið á svipuðum aldri, spurði ég. Hvað ertu gömul, spurði amma konuna sem greinilega var viðstödd. Æi, ég man það ekki!, svaraði konan og þær báðar hlógu dátt.

27. febrúar 2008

Aukastarfið mitt

Fyrir nokkrum árum, á hjónaballi, var mér lýst sem fjölmiðlafulltrúa Flatatungu. Í gærkveldi sinnti ég þessu hlutastarfi mínu þegar ég fór á fund félags sauðfjárbænda í Skagafirði og tók á móti útskornum hrút með nafni okkar Einars á. Blakkur, sonur Rúðubrots og einhvers sæðingahrúts frá Borgarfirði, var stigahæstur fullorðinna hrúta 2007. Hér sjáið þið þennan glæsta grip. Fundargestir dásömuðu hornalag hans en veittu nafni móður hans sérstaka athygli .

Fór í dag í Krókinn, hitti langömmuna og langafann - ótrúlega ungleg miðað við titla, en æi verð að hætta því uppáhalds spjallþátturinn minn er byrjaður! Kiljan. Síjú.

17. febrúar 2008

Fleiri myndir

Jódís og Inga nýkomnar niður. Fyrir aftan Ingu sést svo í Sigfríði og Gunnar á niðurleið.

Sigfríður með sinn hvoran guttann á lærum sér.

Af hverju í #$%"! kem ég ekki fleiri myndum á síðuna?


Loksins komumst við börnin á skíði með skíðalyftu - þó að það hafi verið öllum hollt að byrja á nýjum skíðum í Vallarmýrisbrekkunni hér heima, með tilheyrandi þrammi upp til að getað rennt sér niður. Við fórum út á Tindastólssvæðið í trússi með Sigfríði svilu og öllum Kárabörnum. Yndislegur dagur!

12. febrúar 2008

....................................

.............................
............................................
................................
.............................
Svona er hljóðið úr mér í dag, svona hressilega raddlaus þökk sé hálsbólgu (og kannski ögn af söng á þorrablótinu). Fór heim úr skólanum eftir tveggja tíma kennslu og lagði mig í 3 tíma! Mér leið eins og blöndu af ábyrgðalausum unglingi og glæpamanni sem er við það að vera staðinn við iðju sína. Að leggja sig í 3 tíma um miðjan dag! Fussumsvei og þvílíkt og annað eins! Mikið andskoti var það gott.

Annars er aðalfréttin sú að amma mín Nóna er orðin langalangamma! Og Baddý og Svavar langamma og langafi. Og Halli fósturbróðir minn orðinn afi!! Já, Nóna "litla" eignaðist undurfagran son í gærkveldi. Innilegar hamingjuóskir, litli drengur, með komuna í þennan heim.

10. febrúar 2008

Þorrablót

Mikið er þorramatur góður, hann verður alltaf betri með hverju árinu. Í fyrsta sinn hlakkaði ég til að borða súrmat, eitthvað sem ég hundsaði fullkomnlega fyrir 10 árum. Þetta er enn eitt merkið um aukin þroska. Geiri var æði eins og vanalega, nú hef ég bætt við háværu "OgSVO!" á undan öllum lögum sem ég raula, auk þess sem ég tek ennþá "OgSóló!!" á undan öllu tralli. Einstakur performant hann Geirmundur Valtýsson.

Ég er enn að jafna mig á að við Einar partíljónapar lentum í næstu þorrablótsnefnd. Eitt hef ég þó ákveðið, ég ætla fá í gegn að sérstakir skemmtiverðir séu ráðnir. Þeir eiga að sjá um: 1) að enginn fari með vökva á dansgólfið (ojj klístrið!), 2) að kjaftaskar og símafíklar þegi yfir skemmtiatriðunum og 3) að allir séu sómasamlega girtir þannig að maður þurfi ekki að hafa naríur annarra fyrir augum þegar maður raðar í sig þorramatinn. Lifi Solga Drottning!

6. febrúar 2008

Ofursætur öskudagur

Yndislegur dagur, þessi sem er rétt liðinn. Ég og drengirnir mínir brunuðum norður á Akureyri eftir vel heppnað öskudagsball á leikskólanum. Ég að sjálfsögðu gleymdi myndavélinni, en Sigfríður svila mín beitti sinni grimmt. Ætlunin var að sækja frumburðinn en hún hafði um morgunin sungið sig inn í hjörtu Akureyringa, með hjálp Kristbjargar Þórarins- og Birgitardóttur, og fengið að launum tæp 3,5 kg af sælgæti. Svo átti að renna sér svo á nýju skíðunum uppi í Hlíðarfjalli. Nú, fjallið rétt lokaði þegar við renndum í hlað, vegna hvassviðris. Þetta fannst börnunum ekkert alslæmt því þá gátu þau farið aftur heim til Kristbjargar og fjölskyldu og létt á fyrrnefndum 3,5 kílóum. Nú þegar klukkan nálgast eitt að nóttu eru u.þ.b 2 kg eftir.

Nammi-fyrir-söng-hefð Akureyringa er stórskemmtileg og stemningin sem myndast frábær. En ég er enn í losti yfir magninu sem þrjár stúlkur fengu á einum morgni, rétt um 10 kg til samans! Ég veit ekki hvort er verra, óhóf akureyskra fyrirtækja (á sumum stöðum fékk hver krakki poka með 3-6 stk. af nammi í) eða að ég er búin að smakka á 3 súkkulaðistykkjum og einni lakkrísrúllu! Hvernig á ég að geta passað nammiátið næstu daga, ha? Í hvað á ég að fara á þorrablótið, ha, ekki stækka minnkuðu sparibuxurnar mínar á næstunni, ha!
Að lokum, ég veit að ég sendi slóðina á einhver netföng en ég má til með að benda á stelpurnar mínar á Akureyrarsíðunni,
http://akureyri.is/frettir/2008/02/06/nr/9704. Yfir og (smjatt-sjmatt) út.