6. febrúar 2008

Ofursætur öskudagur

Yndislegur dagur, þessi sem er rétt liðinn. Ég og drengirnir mínir brunuðum norður á Akureyri eftir vel heppnað öskudagsball á leikskólanum. Ég að sjálfsögðu gleymdi myndavélinni, en Sigfríður svila mín beitti sinni grimmt. Ætlunin var að sækja frumburðinn en hún hafði um morgunin sungið sig inn í hjörtu Akureyringa, með hjálp Kristbjargar Þórarins- og Birgitardóttur, og fengið að launum tæp 3,5 kg af sælgæti. Svo átti að renna sér svo á nýju skíðunum uppi í Hlíðarfjalli. Nú, fjallið rétt lokaði þegar við renndum í hlað, vegna hvassviðris. Þetta fannst börnunum ekkert alslæmt því þá gátu þau farið aftur heim til Kristbjargar og fjölskyldu og létt á fyrrnefndum 3,5 kílóum. Nú þegar klukkan nálgast eitt að nóttu eru u.þ.b 2 kg eftir.

Nammi-fyrir-söng-hefð Akureyringa er stórskemmtileg og stemningin sem myndast frábær. En ég er enn í losti yfir magninu sem þrjár stúlkur fengu á einum morgni, rétt um 10 kg til samans! Ég veit ekki hvort er verra, óhóf akureyskra fyrirtækja (á sumum stöðum fékk hver krakki poka með 3-6 stk. af nammi í) eða að ég er búin að smakka á 3 súkkulaðistykkjum og einni lakkrísrúllu! Hvernig á ég að geta passað nammiátið næstu daga, ha? Í hvað á ég að fara á þorrablótið, ha, ekki stækka minnkuðu sparibuxurnar mínar á næstunni, ha!
Að lokum, ég veit að ég sendi slóðina á einhver netföng en ég má til með að benda á stelpurnar mínar á Akureyrarsíðunni,
http://akureyri.is/frettir/2008/02/06/nr/9704. Yfir og (smjatt-sjmatt) út.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig klígjar, 3,5 kíló er nokkuð stórhlutfall af líkamsþyngd barnsins.
Kv.
Sg

Nafnlaus sagði...

Maður getur nú fengið smá aðstoð, ha (við átið). Þetta er eitthvað sem grasrótin verður að breyta. Væntingarnar meina ég.
Kv. S.G.

iol sagði...

Frábærar þessar Sg og S.G. færslur - hvor ætli sé S.G. og hvor S.S.G.? Gaman að sjá ykkur Siggurnar mínar!
kv S.I.O.G.L.

Nafnlaus sagði...

Gaman að kíka á síðuna þína kæra vinkona. Kíkti líka inn á myndalinkinn. Held alltaf upp á öskudaginn því ég skemmti mér alltaf svo vel á þessum degi í "gamla daga"
Kær kveðja,
Auður H Ingólfsdóttir