31. júlí 2008

zdra stvoi té!

Hvernig er hægt að ætlast til að maður pakki í þessu veðri? Allt er opið, gluggar og dyr, en samt bráðnar maður hægt og rólega. Í kvöld rúllum við Einar svo suður og fljúgum í fyrramálið til Helsinki. Þar fer hundrað manna hópurinn upp í rútur og ekur til sankti Pétursborgar? Hvar eru lestirnar í Evrópu?

Ekki er veðrið eins gott í Rússlandi eins og hér á klakanum, spáð er rigningu hvern einasta dag sem við eigum að vera þar. Best að njóta steikjandi hitans hér rúmlega 65°norður.

23. júlí 2008

Hér er ekkert atvinnuleysi iðnaðarmanna.

ATHugið * athugið, allar myndir eru vistaðar stórar (800x600) ef vera skyldi að fólk vilji skoða þær nánar, ha, mamma.

Hún Helga tengdamóðir mín tók þessar tvær fyrstu myndir í myndasyrpu dagsins. Þær voru teknar um helgina þegar foreldrarnir voru í heyskap en börnin léku sér að kappi í garðinum hjá afa og ömmu. Þessar myndir eru hvor á sinn hátt stórkostlegar; á þeirri fyrir virðist hver í sínum leik eða kannski eru allir í sama leiknum, við fullorðins skiljum hann bara ekki. Allavega er allt í botni.


Hver snertir ekki hvern í þessari ljúfu mynd.



Í gær byrjuðu þær Inga og Embla Björt, ættuð frá Uppsölum, á gjörningi sem þær kalla húsbíl. Þær eyddu megninu af deginum og kvöldinu; í dag var haldið áfram og um kvöldmat gátu þær húkt tvær inni í honum með vatn og seríós. Húsbíllinn er um 1 fermetri, voða kósí.


Húsbíllinn er að sjálfsögðu málaður að utan sem innan. (valdi þessa mynd sérstaklega því frumburðurinn náði að geifla sig á öllum hinum á meðan Embla var eins og fyrirsæta á hverri einustu).


Davíð sat ekki auðum höndum, heldur notaði timbrið frá Árna á Uppsölum - sá sendi okkur heim með fullt skott af spýtum. Þetta er flugvél.


Marín Björt - Emblu systir - og Gunnar máluðu gólf á framtíðarhúsi. Hrikaleg krútt.

18. júlí 2008

Komin heim í heyið og girðingavinnu úr barna- og búðarápi í Reykjavíkinni. Ekki er hægt að segja að nokkru okkar hafi leiðst þessa fjóra daga fyrir sunnan. Við skiluðum Kristínu af okkur í Hafnafjörðinn og fengum gistingu hjá systur minni. Y-y-yndislegt eldgamalt hús sem fjölskyldan er flutt í við Lækjargötuna - með alvöru læk. Húsið er örugglega eitt af fyrstu húsum Hafnafjarðar og af anda þess að dæma hafa aðeins eðalmanneskjur búið í því.

Kvöldið sem við komum til Dagnýar lenti ég í einu skemmtilegasta samsæti sem ég man eftir. Í nokkrar klukkustundir nær samfleytt hló hver einasti maður þannig að magavöðvarnir minntu á Mercedes Club meðlimi eftir kvöldið. Við borðið var skrítin og skemmtilega blanda af fólki; við hálfsysturnar Dagný, Eva Rós frænka mín og hálfgerð uppeldissystir, Valka og Ása kjörsystur Dagnýar, ásamt mönnum Dagnýar og Völku. Náðuðiðessu? Gvuð hvað ég grenjaði mikið.

Annars segja myndirnar ýmislegt um síðustu daga.

Dagný og Kiddi komu í dagsferð til að færa okkur Kristínu. Strákarnir náðu vel saman og breyttust fljótt í funheitar ofurhetjur.


Stúlkurnar hinsvegar klæddu sig í sitt fínasta og sýndu dömulega takta.

Á suðurleið borðuðum við nesti í Borgarvirki. Þrátt fyrir margar tilraunir - einkum strákanna - slasaðist enginn og lítið blóð rann.

Við túnfótinn hjá Dagný og co rennur lækur, sbr. Lækjargata. Hjá stelpunum er hægt að fá sérstaka vaðskó.

Endurnar fengu afganginn af ferðanestinu okkar, bollur og pizzusnúða. Aðalmarkmið krakkanna var að henda sem lengst frá mávunum og hygla frekar öndum og gæsum. Ekki fannst mér mávarnir hafa yfirhöndina þarna, þeir urðu fyrir sífelldum ofbeldisfullum árásum andarmæðra.


Leiði Halla langafa var heimsótt, blómin vökvuð með öllum tiltækum ráðum og arfi rifinn. Klæðaburður barnanna sýnir veðurblíðuna í Reykjavík.


Draumur Davíðs (eða heldur árátta) er að eignast Playsteisjon eins og Kári og Eymundur Ás.

5. júlí 2008

Sælir sumardagar

Komin helgi! En hverju skiptir það þegar maður er í fríi alla daga? Hér líður hver dagurinn á fætur öðrum við sumarstörf - smá heyskapur, útileikir, garðvinna, óhófleg kaffidrykkja með gestum og gangandi (tjah, flestir keyra nú hingað)....

Veðrið er eins yndislegt og spámenn sögðu til um. Best að hengja út úr vélinni (já ég veit, Elva Björk, ég á þurrkara!)

1. júlí 2008

Jónas og Hvalurinn

Gestirnir eru farnir og barnapían með. Jónas og Stína komu á Hvalnum sínum - ameríska pikköppnum með kamper áföstum - og gistu tvær nætur á hlaðinu, en þau nýttu heimsóknina til að sækja Huldu barnapíu og barnabarn Jónasar. Að hitta Jónas - sem gerist vart oftar en 1-2. á ári - sannar þá staðreynd að það skiptir ekki máli hversu oft maður hittir vini sína, tíminn og lengd hans breytir litlu. Þ.e. lengd tímans, ekki Jónasar.

Það stóð til að taka saman hey nú upp úr hádeginu en enn er tuggan of blaut og einn traktorinn bilaður. Alltaf rek ég mig á að það er ekki hægt að skipuleggja neitt í kringum heyskap. Habbarahafaða.

Hygg enn á suðurferð... auglýsi hér með eftir rigningu norðanlands í um 3-4 daga.