18. júlí 2008

Komin heim í heyið og girðingavinnu úr barna- og búðarápi í Reykjavíkinni. Ekki er hægt að segja að nokkru okkar hafi leiðst þessa fjóra daga fyrir sunnan. Við skiluðum Kristínu af okkur í Hafnafjörðinn og fengum gistingu hjá systur minni. Y-y-yndislegt eldgamalt hús sem fjölskyldan er flutt í við Lækjargötuna - með alvöru læk. Húsið er örugglega eitt af fyrstu húsum Hafnafjarðar og af anda þess að dæma hafa aðeins eðalmanneskjur búið í því.

Kvöldið sem við komum til Dagnýar lenti ég í einu skemmtilegasta samsæti sem ég man eftir. Í nokkrar klukkustundir nær samfleytt hló hver einasti maður þannig að magavöðvarnir minntu á Mercedes Club meðlimi eftir kvöldið. Við borðið var skrítin og skemmtilega blanda af fólki; við hálfsysturnar Dagný, Eva Rós frænka mín og hálfgerð uppeldissystir, Valka og Ása kjörsystur Dagnýar, ásamt mönnum Dagnýar og Völku. Náðuðiðessu? Gvuð hvað ég grenjaði mikið.

Annars segja myndirnar ýmislegt um síðustu daga.

Dagný og Kiddi komu í dagsferð til að færa okkur Kristínu. Strákarnir náðu vel saman og breyttust fljótt í funheitar ofurhetjur.


Stúlkurnar hinsvegar klæddu sig í sitt fínasta og sýndu dömulega takta.

Á suðurleið borðuðum við nesti í Borgarvirki. Þrátt fyrir margar tilraunir - einkum strákanna - slasaðist enginn og lítið blóð rann.

Við túnfótinn hjá Dagný og co rennur lækur, sbr. Lækjargata. Hjá stelpunum er hægt að fá sérstaka vaðskó.

Endurnar fengu afganginn af ferðanestinu okkar, bollur og pizzusnúða. Aðalmarkmið krakkanna var að henda sem lengst frá mávunum og hygla frekar öndum og gæsum. Ekki fannst mér mávarnir hafa yfirhöndina þarna, þeir urðu fyrir sífelldum ofbeldisfullum árásum andarmæðra.


Leiði Halla langafa var heimsótt, blómin vökvuð með öllum tiltækum ráðum og arfi rifinn. Klæðaburður barnanna sýnir veðurblíðuna í Reykjavík.


Draumur Davíðs (eða heldur árátta) er að eignast Playsteisjon eins og Kári og Eymundur Ás.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En gaman ad sjá allar myndirnar, gott ad þú skemmtir þer i borginni. Hlakka til ad heyra meir.
Mamma