25. ágúst 2008

Nýjar vikur daglega!

Svo hratt líður tíminn að ætla mætti að vikurnar hefðu styst um einhverja daga! Helgin búin og mánudagur líka - hvert fer tíminn eiginlega?

Við allavega fórum á ýmsa staði. Ég byrjaði á óvissuferð með starfsfólki Varmahlíðarskóla, keyrðum að Laugarfelli og eftir langa, djúpa viðveru í lauginni ókum við oní Eyjafjörðinn með stansi í Leyningshólum - þvílík perla!

Nú, svo fórum við börnin á Tjörnesið á laugardaginn með viðkomu á Glerártorgi. Af gefnu tilefni legg ég til að Tojsaröss verði færð á minna áberandi stað í þessu molli. Karl faðir minn hitti mig sem betur fer á torginu því að eftir Nettó og Office 1 gat ég skellt ís oní þau öll og látið grandalaust fórnarlambið sitja yfir þeim á meðan ég hljóp ein í skóbúð. Á Tjörnesi var yndislegt. Tóti (sem er frá Ytri-Tungu á Tjörnesi, þar sem við vorum), Birgit, Níels og Kristbjörg tóku vel á móti okkur; börn og unglingar fóru í fótbolta á túninu á meðan ég flúði í kaffibolla eftir aksturinn (ég veit, mamma, ekkert bílþol!). Best að myndirnar segi frá restinni....

Tóti og Birgit búa svo vel að eiga bryggju, bát, fjöru, læk og steingerfingafjall á einum og sama staðnum. Ekki sést það á myndinni en Birgit hefði alveg verið til í að binda nokkra drengi niður með sterkum kaðli þar sem hreyfiorkan fór á blússandi ferð í þessu umhverfi.


Ekki var til umræðu að Davíð tolldi í fötum, enda mjög upptekin við að fleyta rekavið niður lækinn og út í sjó.


Inga, ásamt Lilju og Elínu Rós, dætrum Lindu og Þorkels á Víðivöllum (Linda kom við á rúnti sínum til Mývatns).


Aðalsport allra drengjanna var að henda öllum stærðum af grjóti fram af bryggjunni og helst að bleyta sem flesta. Mjög gaman.


Sullað í læknum. Ég komst hjá því að leyfa Ásnum að fara í fótabað í læknum vegna kvefs og loftkælingu, en ég eiginlega lofaði honum að við færum á Tjörnes að ári liðnu og þá mundu fötin fjúka, allavega sokkar og buxur!

Engin ummæli: