Náði að lesa heila bók yfir jólin. Kláraði að vísu aðra sem ég var löngu byrjuð á áður en fyrsta jólaserían var sótt úr geymslu. Sú var eftir Annie Proulx, höfund "the Shipping News" sem hefur verið í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hét "Ace in the hole", gerðist öll í Texas og þvílíkir karakterar, þvílíkar persónulýsingar og veðrið! Þetta var á köflum eins og að lesa klassíska íslenska skáldsögu þar sem veðrið kemur stöðugt við sögu.
Nema hvað, Las Arnald þessara jóla, Vetrarborgina, og líkaði nokkuð vel. Mér finnst hann aldrei hafa náð sömu hæðum síðan hann skrifaði Grafarþögn, og það er bara ósanngjarnt að ætlast til að hann nái að skapa sögu sem grípur lesandann eins fast og hún. En í Vetrarborginni nær Arnaldur að flétta saman aðalsöguþráðinn við nokkra aukaþræði, og í þetta sinn er þemað börn, uppeldi barna, áhrif fyrringu nútímans á börn. Ég hélt fyrst að hann mundi sökkva sér í nýbúa umræðuna og sannarlega fjallar hann um nýbúa, fordóma, mismunun og mörg önnur miður mál tengd nýbúum. En hinsvegar eru það börnin sem eru í forgrunni hjá honum.
Frábær bókin sem ég er að lesa nú. "Afi" John skildi hana eftir handa mér, heitir 1491. Höfundur sýnir fram á að Indjánar N- og S-Ameríku voru miklu þróaðri og fjölmennari en sögubækur hafa haldið fram hingað til. Hann leggur fram mjög sannfærandi rannsóknir og rök fyrir máli sínu þó að ekki hefði þurft mikið til að sannfæra mig. Varla gat verið að íbúar þessara tveggja heimsálfa (fyrir utan Maya og Inka) skæru sig svo úr frá hinum mannskepnunum á jörðinni að þeir hefðu lítið sem ekkert þróast síðustu 15-20 þúsund árin (nýlegar rannsóknir sanna að Indjánar hafi ekki gengið yfir Bering sundið fyrir um 13 þúsund árum því mannvistaleifar hafa fundist í Chile sem eru um 12 þúsund ára).
Svo er annað hvort maður klári þessa bók, maður þarf fyrst að lesa Bubbi byggir, Týndu augun, Pétur og kötturinn Brandur og fleiri og fleiri góðar sögur fyrir gott smáfólk.
11. janúar 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli