8. janúar 2006

Svona var dagurinn:

Tvisvar hef ég reynt að halda dagbók, í fyrra skiptið var ég tólf ára og hafði fengið fallega, auða dagbók frá mömmu til að reyna við. Í henni eru brjálæðislega fyndnar lýsingar mínar á diskóteki veturinn ´79-´80 og fleiri umhugsunarefnum þess tíma. Hitt skiptið hafði ég lært leyniletur þróað af bekkjafélaga mínum í Seattle Central Community College og var hann svo ótrúlega elskulegur að deila því með sér. Þessar 4-5 færslur á þessu annars frábæra leyniletri eru svo háfleygar að þótt þær væru á einfaldri íslensku mundi ekki nokkur maður skilja þær. Svona voru háskólapælingarnar.
En, sumsé, dagbókin á m.a. að geyma uppákomur dagsins, ef maður vill. Þetta gerðist í dag:
  • Þrjú börn, seinna fjögur, og móðir nutu barnaefnisins þar til vandlætingamælir móður á sjónvarpsgláp ungra barna fylltist.
  • Móðir klæddi 31/2 barn í heilan vetrarbúning með öllu tilheyrandi, á meðan faðir gekk frá hádegisverðinum. Fóru þau svo öll að sækja síðheimt (er þetta gilt orð?) lamb sem loks fannst á túni nærliggjandi bæjar. Börnin fundu fínasta svell sem þau hlupu á og létu sig renna. Móðir klappaði sér á bakið fyrir að öll voru með húfur, flíshettur og svo gallahettur á höfðum þegar þau (höfuðinn) kysstu svellið. Þakkaði sér og pínulítið Guði fyrir að enginn fékk höfuðhögg
  • Baddý og Svavar (VAVA!!!! í flutningi Gunnars) komu. Móðir hafði boðið þeim að velja, annaðhvort hún + 4 börn til þeirra á Krókinn, eða þau hingað. Þau umsvifalaust völdu að koma hingað. Maður sér nú í gegnum þetta. Svavar eyðilagði einn af mínum (ekki í móðurhlutverki hér) fáum byggt-og-búið-draumum sem ég hef átt frá því að ég fór að hugsa um þann fjarlæga möguleika (hann virtist alltaf svo þægilega fjarlægur hér áður fyrr) að vera með VIÐ á gólfum. Ekta tré. Lifandi. Eða næstum því. Aldrei ætlaði ég að gefa mig og ganga á plasti - OJJ! Í Seattle var mjög raunhæfur möguleiki að vera með ekta ekkkta planka, beint af trénu, en hér heima í auðninni sætti ég við þetta hefðbundna parket. Hafði fengið prufur í Býkó. Við Einar áttum von á Hlyninum á þriðjudaginn, sem við pöntuðum á útsölu í gær á Akureyri. Sagði náttúrlega Svavari smiði frá því, sem hélt langa bassaræðu um hve ekta parket væri fjarsinna og þá sérstaklega á svona barnmörgu heimili, yrði ónýtt eftir árið, (og lokahnykkurinn!:) tók skeið, skóf fagrar línur í parketprufurnar mínar. Ég m.a. skrifaði nafnið mitt í eina.... Þetta er hræðilegt, en ég er hrædd um að ég verði að gefa mig og (pjúkpjúkæl) gefast upp fyrir gerfinu. Eins og mig langaði í alvöru tré.
  • Davíð datt afturábak úr efri kojunni og blessunarlega, jafnframt ótrúlega, rotaðist ekki né hlaut mikinn skaða af. Jú, kúlan er hrottalega blá og hornótt, en heilinn hristist sem betur fer ekkert. Móðir í sjokki.
  • Eymundur Ás fór með Baddý og Svavari í Krókinn, var sofnaður í fanginu á Ílis-móður áður en hann snerti bílstólinn. Það er púra puð að vera í stórum systkinahóp.
  • Er þetta ekki nóg á einum degi? Ég fer hjá mér ef ég held áfram.

Engin ummæli: