6. mars 2006

Ótrúleg afköst

Ég sé að ég hef fætt börn næstum eins oft og ég hef bloggað.

4. febrúar 2006

Blogg

Þetta er erfiðara en að ganga á kolum, að halda úti reglulega uppfærðri bloggsíðu! Ég sverða, það er eins gott að þetta sé bara tilraun hjá mér frekar en heitstrengt áramótaheit eða eitthvað álíka.

Er að hugsa um að aðhyllast dönsku hreyfingunni, svona a.m.k. að hluta til. Skella mér á danska kúrinn hvað varðar bílhlöss af grænmeti á dag og engan sykur. Ég er hrædd um að nýrnasteinunum mínum yrði úthýst fljótlega ef ég stæði mig vel. Þeir gætu húkkað far með Karíusi og Baktusi, því þeir færu líka fljótlega ef ég minnka við mig súkkulaðið. Það má alltaf láta sig dreyma.

Við Hlynur erum ennþá sem eitt...

24. janúar 2006

Hlynur, þú ert sá eini...

Er hægt að elska gólfefni svona heitt?

19. janúar 2006

Snjór...

er svo fallegur. Og góð lykt af honum. Og gaman að leika sér í honum. En líka gott að komast inn í hlýjuna, hún er svo miklu hlýrri þegar snjóar.

16. janúar 2006

Nýja England

Vissir þú að N-England Bandaríkjanna var þéttsetin Indjánabyggð þegar fyrstu Evrópubúarnir litu við þar? Að Indjánar bjuggu í vel byggðum bæjum, ræktuðu maís, ráku illa lyktandi, vannærðu Evrópubúana burt þegar þeir höfðu setið of lengi. Árið 1616 barst lifrabólga í Indjána og þremur árum síðar var allt að 90% af fólkinu dáið. Svæðið var af sumum kallað nýja Golgata. Árið 1633 dóu þriðjungur ef ekki helmingur af eftirlifandi úr mislingum.

Það var víst ekki vopnum að þakka að Evrópubúar komust auðveldlega yfir landið, heldur veirum.

Trjágleði og súkkulaðihamingja

Ef ég get glaðst innilega í nokkra klukkutíma yfir listagóðu súkkulaði eða bara ljúffengum mat, þá hlýtur gleðin yfir langþráðu parketi að endast í margar vikur ef ekki mánuði. Svo kannski dofnar himinháa parketgleðin með tímanum svipað og ástríðan í ástarsambandi sem dofnar og verður að væntumþykju.

Það skemmir ekki gleðina yfir að fá spýtur á gólfið.

14. janúar 2006

Spánverjar

Sá eina fyndnustu mynd síðari ára. Var sýnd á RUV í gærkveldi, um einkaspæjarann Torrente í Marbella borg á Spáni. Við hjónaleysin grétum úr hlátri. Þar sem ég er ennþá að jafna mig á pólitískri rétthugsun og meðfylgjandi ritskoðun Bandarískrar menningar, þá var þessi mynd sem ferskur blær innan um hræsnisfullar hollívúddmyndirnar . Ekkert heilagt: konur, svartir, Asíubúar, aldraðir, alkóhólistar, dópistar, dýravinir, karlmenn, offeitir, fatlaðir, börn, þjóðernissinnar, trúaðir... Ég er örugglega að gleyma einhverjum.

11. janúar 2006

Jólalesturinn

Náði að lesa heila bók yfir jólin. Kláraði að vísu aðra sem ég var löngu byrjuð á áður en fyrsta jólaserían var sótt úr geymslu. Sú var eftir Annie Proulx, höfund "the Shipping News" sem hefur verið í algjöru uppáhaldi hjá mér. Hét "Ace in the hole", gerðist öll í Texas og þvílíkir karakterar, þvílíkar persónulýsingar og veðrið! Þetta var á köflum eins og að lesa klassíska íslenska skáldsögu þar sem veðrið kemur stöðugt við sögu.
Nema hvað, Las Arnald þessara jóla, Vetrarborgina, og líkaði nokkuð vel. Mér finnst hann aldrei hafa náð sömu hæðum síðan hann skrifaði Grafarþögn, og það er bara ósanngjarnt að ætlast til að hann nái að skapa sögu sem grípur lesandann eins fast og hún. En í Vetrarborginni nær Arnaldur að flétta saman aðalsöguþráðinn við nokkra aukaþræði, og í þetta sinn er þemað börn, uppeldi barna, áhrif fyrringu nútímans á börn. Ég hélt fyrst að hann mundi sökkva sér í nýbúa umræðuna og sannarlega fjallar hann um nýbúa, fordóma, mismunun og mörg önnur miður mál tengd nýbúum. En hinsvegar eru það börnin sem eru í forgrunni hjá honum.
Frábær bókin sem ég er að lesa nú. "Afi" John skildi hana eftir handa mér, heitir 1491. Höfundur sýnir fram á að Indjánar N- og S-Ameríku voru miklu þróaðri og fjölmennari en sögubækur hafa haldið fram hingað til. Hann leggur fram mjög sannfærandi rannsóknir og rök fyrir máli sínu þó að ekki hefði þurft mikið til að sannfæra mig. Varla gat verið að íbúar þessara tveggja heimsálfa (fyrir utan Maya og Inka) skæru sig svo úr frá hinum mannskepnunum á jörðinni að þeir hefðu lítið sem ekkert þróast síðustu 15-20 þúsund árin (nýlegar rannsóknir sanna að Indjánar hafi ekki gengið yfir Bering sundið fyrir um 13 þúsund árum því mannvistaleifar hafa fundist í Chile sem eru um 12 þúsund ára).

Svo er annað hvort maður klári þessa bók, maður þarf fyrst að lesa Bubbi byggir, Týndu augun, Pétur og kötturinn Brandur og fleiri og fleiri góðar sögur fyrir gott smáfólk.

8. janúar 2006

Svona var dagurinn:

Tvisvar hef ég reynt að halda dagbók, í fyrra skiptið var ég tólf ára og hafði fengið fallega, auða dagbók frá mömmu til að reyna við. Í henni eru brjálæðislega fyndnar lýsingar mínar á diskóteki veturinn ´79-´80 og fleiri umhugsunarefnum þess tíma. Hitt skiptið hafði ég lært leyniletur þróað af bekkjafélaga mínum í Seattle Central Community College og var hann svo ótrúlega elskulegur að deila því með sér. Þessar 4-5 færslur á þessu annars frábæra leyniletri eru svo háfleygar að þótt þær væru á einfaldri íslensku mundi ekki nokkur maður skilja þær. Svona voru háskólapælingarnar.
En, sumsé, dagbókin á m.a. að geyma uppákomur dagsins, ef maður vill. Þetta gerðist í dag:
  • Þrjú börn, seinna fjögur, og móðir nutu barnaefnisins þar til vandlætingamælir móður á sjónvarpsgláp ungra barna fylltist.
  • Móðir klæddi 31/2 barn í heilan vetrarbúning með öllu tilheyrandi, á meðan faðir gekk frá hádegisverðinum. Fóru þau svo öll að sækja síðheimt (er þetta gilt orð?) lamb sem loks fannst á túni nærliggjandi bæjar. Börnin fundu fínasta svell sem þau hlupu á og létu sig renna. Móðir klappaði sér á bakið fyrir að öll voru með húfur, flíshettur og svo gallahettur á höfðum þegar þau (höfuðinn) kysstu svellið. Þakkaði sér og pínulítið Guði fyrir að enginn fékk höfuðhögg
  • Baddý og Svavar (VAVA!!!! í flutningi Gunnars) komu. Móðir hafði boðið þeim að velja, annaðhvort hún + 4 börn til þeirra á Krókinn, eða þau hingað. Þau umsvifalaust völdu að koma hingað. Maður sér nú í gegnum þetta. Svavar eyðilagði einn af mínum (ekki í móðurhlutverki hér) fáum byggt-og-búið-draumum sem ég hef átt frá því að ég fór að hugsa um þann fjarlæga möguleika (hann virtist alltaf svo þægilega fjarlægur hér áður fyrr) að vera með VIÐ á gólfum. Ekta tré. Lifandi. Eða næstum því. Aldrei ætlaði ég að gefa mig og ganga á plasti - OJJ! Í Seattle var mjög raunhæfur möguleiki að vera með ekta ekkkta planka, beint af trénu, en hér heima í auðninni sætti ég við þetta hefðbundna parket. Hafði fengið prufur í Býkó. Við Einar áttum von á Hlyninum á þriðjudaginn, sem við pöntuðum á útsölu í gær á Akureyri. Sagði náttúrlega Svavari smiði frá því, sem hélt langa bassaræðu um hve ekta parket væri fjarsinna og þá sérstaklega á svona barnmörgu heimili, yrði ónýtt eftir árið, (og lokahnykkurinn!:) tók skeið, skóf fagrar línur í parketprufurnar mínar. Ég m.a. skrifaði nafnið mitt í eina.... Þetta er hræðilegt, en ég er hrædd um að ég verði að gefa mig og (pjúkpjúkæl) gefast upp fyrir gerfinu. Eins og mig langaði í alvöru tré.
  • Davíð datt afturábak úr efri kojunni og blessunarlega, jafnframt ótrúlega, rotaðist ekki né hlaut mikinn skaða af. Jú, kúlan er hrottalega blá og hornótt, en heilinn hristist sem betur fer ekkert. Móðir í sjokki.
  • Eymundur Ás fór með Baddý og Svavari í Krókinn, var sofnaður í fanginu á Ílis-móður áður en hann snerti bílstólinn. Það er púra puð að vera í stórum systkinahóp.
  • Er þetta ekki nóg á einum degi? Ég fer hjá mér ef ég held áfram.

Ég trúi þessu ekki

Nei, nú hef ég brotið hina allra heilögustu reglu mína - kannski ekki allra heilögustu, en hún er mjög ofarlega á reglulistanum mínum. Ég ætla að prófa þessa blogg-upplifun. Hún endist örugglega ekki lengi, þessi síða, og helst ætti ég að veðja við einhvern að þessi síða lifir ekki af páskana(þó ekki Kollu á Úlfsstöðum, sem á inni hjá mér tertu vegna veðmáls). Allavega ekki til sumars. En reynum á það...