26. maí 2008

Útskrift og Oddur Kárason

Í dag var stór dagur í lífi Davíðs - og Jódísar Helgu. Þau formlega útskrifuðust úr leikskólanum. Foreldrar, afar og ömmur tróðu sér með herkjum inn á litla stóru deild leikskólans til að berja augum þessa tylft barna sem mun byrja í 1. bekk grunnskóla í haust. Hópurinn lék, söng, spilaði og dansaði fyrir gesti og ekki var laust við að undirrituð vöknaði ögn um augun þegar sonurinn sýndi trommutaktana. Og söng. Og dansaði. Ja hérna, hver hefði trúað því fyrir ári að þetta sama barn mundi koma fram fyrir hópi fólks og performera. Hvað þá að hann hefði leyft fóstrunum að kyssa sig! En það tók steininn úr þegar hann sagði, áður en við fórum að heiman í morgun, mamma manstu eftir myndavélinni? Fyrir ári hefði hann líklegast beðið þungbrýnn og hljóðalaus einhversstaðar afsíðis á meðan uppákoman liði hjá.

Oddur Kárason heiðrar okkur með nærveru sinni þessa dagana. Og það er sko heiður. Eins og alþjóð veit er þetta einstaklega vel gerður, skemmtilegur og góður drengur og ég gæti endalaust þulið upp hans kosti, en ég vil forðast langt mál á þessu bloggi. Læt nægja að minnast á að börnin mín þrjú dýrka Odda frænda sinn og allt að því berjast um hylli hans. Nú, hér eru svo nokkrar myndir frá gærdeginum og útskriftinni.

Inga bjó til svalandi trópíska drykki (appelsínusafa með sítrónusneið) þar sem sól skein skært. Rokið var full mikið þó, en drykkinn svældu þau í sig í hvassviðrinu.


Um leið og Baddý og Svavar komu, lægði nóg til þess að hægt var að drekka úti.



Útskriftarhópurinn setti upp stykkið Maximús Músikús. Davíð var hestur en Jódís geit.


Hlutverk Davíðs var að spila fótatak hests á slagverk. Aldrei hefur hljómað þvílíkur sláttur.




Loks náðist mynd af bestustu vinunum þremur, Óskari Aron, Einari og Gunnari. Hornamerkið er það nýjasta sem Gunnar hefur numið af systkinum sínum.

Mesti óvitinn á heimilinu, Týri Prins Depilsson. Davíð tók þessa mynd en einnig festi hann 3 lamba-, 2 himna- 3 gras-, 5 líkamshluta- og 14 steinamyndir á stafrænu, svo fátt sé nefnt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hugmynd að aukabúgrein: Atferlisráðgjöf fyrir börn með mótþróaþrjóskuröskun on-line..
Kveðja,
Sg

Nafnlaus sagði...

Mótþróaþrjóskuröskun uu..??
Mótþróaþrjóskuraskari = leiðitamur.
S.G.