29. júní 2008

Börnin þagna

Einn fyrstu hvítu landkönnuða Norður-Ameríku skrifaði í dagbókina sína um þá djúpu, mannlausu þögn sem hann upplifði í einhverjum skóginum sem hann heimsótti. Sú þögn er umlykur mig - fyrir utan tölvusuð og lyklaborðssmelli - hlýtur að vera svipuð. Öll börn sofnuð og fullorðnir líka. Yndislegt. Öllum er hollt að eiga einkastund með sjálfum sér og oft fær móðirinn hana þegar börnin sofna. En þegar það síðasta er ekki fallið fyrr en um miðnætti er fátt um fína drætti. Kannski þess vegna sem geðheilsan í dag hefur verið heldur hrist og skekin. Ég tek að sjálfsögðu einhverja ábyrgð á viðsnúningi sólarhringsins þar sem ég hef átt erfitt með að vekja þau snemma á morgnana. Mér finnst bara erfitt að vita af þeim þreyttum og slæptum yfir daginn, greyjunum. Í gærkveldi asnaðist ég svo til að leyfa þeim að horfa á sjálfan Hulk, græna stökkbreytta risann, en hann er í hetjuliðinu hjá krökkunum ásamt þeim fóstbræðrum Spæder- Súper- og Battmanni. Sófinn var þéttsetinn, ég neðst og svo fjögur spennt og hálfskelfd börn yfir og alltum kring. Þetta bíó olli því náttúrlega að allir fóru svívirðilega seint að sofa, einn gat ekki sofnað án ljóss í ganginum og félagsskaps og annar vaknaði við martraðir. Í dag voru allir hinsvegar kokhraustir og kannaðist engin sála við að hafa orðið hræddur. Þvílíkt bull og vitleysa!

En að öðru. AÐVÖRUN: ég stefni suður á bóginn um leið og spáir allavega 3 daga rigningarlotu. Þeir sem vilja sjá mig mega byrja að hlakka óstjórnlega til. Hinir hafi hljótt um sig.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sofandi börn eru bestu börnin, það hef ég alltaf sagt. Sit og bíð eftir að morgunhaninn minn ljúki sér af í morgunverkum svo við getum haldið suður á bóginn.
Kv.
Sg

Nafnlaus sagði...

Gott hjá þer, ömmu þinni er farid ad lengja eftir þer, gefdu henni godan tima i þetta sinn.
koss og knús, mamma