Síðasta Silfrastaðakirkjukórsæfingin er yfirstaðin, var haldin í gær á Uppsölum eins og vanalega. Og eins og vant er var fyrst drukkið kaffi og jólate með fjölbreyttu meðlæti hjá Sólveigu, síðan æft og svo aftur drukkið kaffi og te . Kóræfingar á Silfrastöðum eru með yndislegri stundum sem ég veit. Frábær félagsskapur, fjörugar samræður, gott kaffi og meððí, góður söngur (allavega segir mamma það, sem hefur mætt á jólaæfingarnar þegar hún er á landinu. Hún hefur verið útnefndur Aðdáandi Númer Eitt eftir lofsyrðin frá því í fyrra).
Eitthvað eru börnin farin að lýjast á piparkökubakstri. Reyndi að fá þau til að skella mótunum á deig í morgun þar sem kökudúnkurinn er tómur í annað sinn. Þetta er líka orðið gott, þessi bakstur fyrir jólin. Nú má bara einbeita sér að þrifum - skafa deigið af gólfunum, skrúbba glassúrsputtaförin af veggjunum, pússa smjörlíkiskáfið af sófasettinu...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli