Ótrúlegt. Heimilið var tölvulaust í nær viku og ég saknaði hennar nær ekkert. Hún kom heim í gær en ég fylltist ekki af djúpstæðri þörf fyrir að nettengjast við umheiminn. Fékk þá vitneskju að allar ljósmyndirnar (þó nokkur hundruðir) hefðu komist af gamla, úr sér slitna harða diskinum yfir á hinn nýja. Fjúkk. Hvað ætli ég hafi predikað oft yfir múg og margmenni um mikilvægi þess að taka öryggisafrit? Óteljandi sinnum? Hefði þurft að taka glósur á eigin fyrirlestri.
Við börnin skreyttum piparkökuhúsið. Það er svoldið skondið. Húsið. Það ber þess öll merki að verktakinn hafi sneytt fram hjá öllum reglum og viðurkenndum vinnuaðferðum. Engin formleg teikning var gerð af byggingunni, veggirnir eru skakkir, sveigðir og sumir brotnir (duttu óvart í gólf). Gluggarnir eru mishátt frá jörðu og af ýmsum stærðargráðum, þakið nær næstum niðrá bakkann, glassúrsskreytingin er eins og eftir parkinsons-klúbbmeðlimi. Það er sumsé æði. Nú er bara nammið eftir - ef það ratar ekki í meltingarfæri afkvæmanna.
Góðu fréttir dagsins: Afidonn er búinn að panta flugfar, JIBBBÍÍÍÍÍÍ!
Slæmu fréttir dagsins: Afidonn dró lappirnar nógu lengi til að ná ömurlegustu tímasetningum á flugfari, 23. des til landsins og 29. til baka. Jæja, hann kemur þó og gleðst ég yfir því.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli