31. mars 2008

Síðast fór ég suður

Lifði af suðurferð yfir helgina með allri fjölskyldunni - börnum og manni. Suðurferðir eru allar frekar keimlíkar; yndislegar, hrikalegar, erfiðar, frábærar og alltof stuttar. Maður hittir sína nánustu en þó ekki nema brot af þeim sem mann langar að sjá. Búðarferðir (fataleysi hrjáir mig þessa dagana) koma ekki til greina (þó hljóp ég inní Hagkaup og reif einhvern bol af herðatré. Hann rétt passar). Maður borðar ljúffengan mat hjá matgóðu fólki (takk fyrir mig Dagný, Eva Rós, amma og Harpa!) og svo venjulegast náum við einni sundferð, í þetta sinn í langbestu laug bæjarins, Seltjarnarnesslaug. En toppurinn var auðvitað að hitta Hörpu móðursystur mína sem býr í sjálfu Texas, enda ferðin farin fyrst og fremst til þess.
Harpa sæta með ormana mína (öll í nýjum bolum frá frænku).
Dugnaðarfólk skellir í sig morgunkakóinu - Kári var upptekinn við lestur.

Amma sæta Soffía elur manninn á Landakoti á virkum dögum. Hún var eiturhress miðað við allt og allt.
Gunnar dýrkar stórar stelpur. Kristín systurdóttir mín er ein af þeim og fékk hún að finna fyrir hrifningu Gunnars með stöðugu áreiti.
Já sumir stækka, aðrir ekki. ,,Litla'' systurdóttir mín, hún Elva Björk er aðeins 11 ára og er búin að ná mér í hæð. Flestir krakkar bíða svona til 12-13 ára þar til þeir taka fram úr mér, ha!

26. mars 2008

Drottning er fædd

Sjáið þessa fallegu gimbur sem afi Gunnar heyrði jarma í morgun þegar hann mætti í lambabraggann. Alltaf er jafn yndislegt að sjá fyrsta lamb vorsins, þó vorið sé ekki eiginlega mætt. Ekki skemmir að hún er svort með hvítan blett á krúnunni, krúttið.

Annars stefnum við öll fimm suður á föstudaginn. Erindið er stórt - kannski ekki bókstaflega, því Harpa móðursystir mín í Texas, BNA er ekkert há í loftinu. En maður sér hana ekki á hverju degi svo best að drífa sig að finna gistingu og skipuleggja ferðina!

22. mars 2008

Bara myndir


Gunnar pósar í nýja rúminu sínu. Verst að þið skilduð ekki heyra gerfi-hroturnar sem fylgdu myndatökunni...

Inga og Eymundur njóta dagsins.


Inga byggði snjóhús með aðstoð EymÁss. Sá síðarnefndi fékk svo að prófa húsið.


Barnapíurnar með börn og hund í eftirdragi.

Laugardagur til lukku

Þennan dag höfum við fjölskyldan bæði fengið og misst. Gunnar fékk loks rúm fyrir stóra krakka, þegar heiðurshjónin á Akureyri mættu með gamla rúmið hennar Kristbjargar, tannaför innifalin. Í staðinn misstum við barnapíurnar tvær, sem hafa staðið sig með soddan prýði bæði í barnapössun og heimilisstörfum. Hinn missirinn er vel kunnugur, Eymundur Ás nýfarinn með mömmu sinni og Þórgunni hundavini (hún vill alltaf hitta fjórfættu fjölskylduna í vaskahúsinu (eða vasklausa húsinu réttara sagt)). Hún er alltaf eins, tómleikatilfinningin þegar hann fer; það þýðir þó ekki að Ásinn sé fyrirferðameiri en hin börnin, langt því frá. Í gær vildi hann samt meina að þegar hann væri hérna fengi ég að prófa hvernig er að vera með 10 börn. Veit ekki alveg hvernig hann komst að þessari niðurstöðu.

20. mars 2008

Kósíheit

Áhyggjur af framtíðarsvefnstað Gunnars Einarssonar eru fyrir bí, þökk sé bloggmenningunni og heiðurshjónunum Tóta og Birgit. Er ætlunin að þau komi með rúmið um leið og þau sækja barnapíurnar mínar, Kristbjörgu dóttur sína og Silju vinkonu hennar. Þangað til fær hann að sofa í holunni, eins og plássið milli afa og ömmu á Háó var alltaf kallað (Ég ætti að vita það, ég var komin yfir fermingu þegar ég hætti að sofa á milli þeirra).

Já, Skírdagur hefur annars verið rólegur. Ofstopaveður hélt börnunum inni í allskyns leikjum og uppákomum (þar komu barnapíurnar sterkar inn; þær pússluðu, léku ímyndaða vini og óvini, lásu, spiluðu, svo eitthvað sé nefnt). Á meðan hamaðist ég við að baka fyrir kaffið eftir messuna á Silfrastöðum. Inga missti af þessum innirólegheitum því hún gisti hjá Baddý og Svavari. Ekki fannst öllum á heimilinu það gott; Eymundur Ás sagði oft aðspurður að hann vildi ekki gera neitt nema bíða eftir Ingu svo þau gætu farið í húsaleik, hvenær kæmi hún eiginlega! Bræður hennar fundu ekki fyrir eins miklum söknuði.

Ég veit að ég hef verið með yfirlýsingar um að setja myndir á þessa síðu. Hér eru tvær frá því í dag.

Eftir að hafa unnið Kristbjörgu í gær vildi Gunnar ólmur tefla við mig í dag. Aðdráttarafl skákarinnar er gegndarlausa drápið sem leikurinn snýst um. Allavega þýddi ekkert fyrir mig að reyna að útskýra hugtakið ,,skák", hvað þá ,,mát".
Á milli þess sem Kristbjörg og Silja sinntu sínum barnapíustörfum biðu þær úti, sem var soldið þreytandi því þær lágu á gluggunum í von um að fá að komast inn. Neinei, þær vildu bara upplifa vonda veðrið, alveg satt.


19. mars 2008

Auglýsi eftir barnarúmi

Að gefnu tilefni bráðvantar Gunnar son minn barnarúm - ekki rimlarúm, þar sem hans gamla hefur verið tekið í sundur og lánað langtum yngri dreng.

Veit einhver um rúm á lausu sem hæfir stórum, duglegum, ógesslega klárum strák? Endilega bjallið.

16. mars 2008

Páskafrí og börn og fleira

Nú er algleymi páskafrísins. Engin vinna, skóli, leikskóli á morgun né alla vikuna =yndislegt. Ekki það að vinnan mín sé leiðinleg, langt því frá, en gott er að hvíla sig frá áreitinu við og við. Í dag og í gær sýndi ég örlitla viðleitni og aðstoðaði Einar við að rýja lömbin. Ekki er það nein þrælavinna, í gær dró ég til hans lömbin og horfði svo aðgerðarlítil á hann rýja á meðan svitalækir og fossar bunuðu niður andlitið á honum. Í dag vildi hann alls ekki að ég drægi til hans, kannski vegna þess að varla ársgömul lömb fara létt með að hendast með mig um króna. Ég mátti því í dag opna og loka spilinu, sem og taka upp ullina og troða henni í poka.
Jú, í dag hefði verið fullkominn dagur til að skella sér á skíði, en það koma fleiri dagar, muniði, í þessu páskafríi, ha!

Set svo nokkrar myndir af fallegu fólki, svosem eins og stjúpbróðurbörnum mínum og barnabörnum Halla Svavars-ogBaddýjar (ég er sumsé afasystir, haha!)

Halli, óskírður drengur Nónu- og Valtýsson og Hrefna Rós Gunnars- og Liljudóttir Jóhönnu.

John Mabrey Malone, 6 ára (eitt sinn kallaður ditti dóti donn, þegar Gunnar gat ekki sagt Litli .... John).

Julia Kay Malone, um 1 1/2 ára

12. mars 2008

Hvað sérðu margar undirhökur?

Lífið gengur sinn vanagang. Skóli, stundum leikskóli, uppeldi, heimalestur, stía syskin í sundur, kvöldmatur, uppvask, þvottur. Og þó ekki. Eftir tvo daga skellur á páskafrí og er það í fyrsta skiptið í mörg ár sem ég man eftir því (ég veit, þetta er einhver fötlun, ég gleymi oft að frí eru í vændum þar til þau renna í hlaðið). Ég hef ekkert þaulskipulagt hvern dag í fríinu en ég ætla allavega á skíði með ungana mína bæði í Stólinn og Hlíðarfjall. Svo ætla ég að næla mér í tvær galvaskar unglingsstúlkur á Akureyri - Kristbjörgu og Silju vinkonu - og hafa þær hjá mér í nokkra daga. Svo kemur fóstursonurinn og verður líka í einhverja daga. Semsé, stefnir í yndislega daga.

Þó það sé nú annað mál, hvað ég vildi að ég hefði vott af sjálfsaga - eða frekar sjálfsmaga - þegar kemur að mat. Fötin mín passa rétt svo og allur matur er svo góður! Og súkkulaðið maður minn! Jæja, ég er nú að verða fertug og þá er bara skynsamlegt að byggja upp ágætis fituforða til að fylla upp í allar hrukkur. Ég verð bara unglegri fyrir vikið, hah!

9. mars 2008

Ynnnndisleg helgi

Nú um helgina stóð Íþróttasamband fatlaðra fyrir skíðanámskeiði, sem Eymundur Ás og Sigga sóttu. Við börnin ákváðum að nýta tækifærið og skella okkur með. Enginn sér eftir því! Hlíðarfjall er frábært skíðasvæði til að byrja með börn. Eftir fyrstu ferðirnar slepptu strákarnir alfarið mömmu sinni og fylltust áður óþekktu öryggi og sjálfstæði í barnabrekkunni. Töfrateppið sló í gegn (gúmmífæriband sem flytur allskyns snjófarartæki (skíði, þotur, sleða, skíðasleða) upp nokkra tugi metra), þeir fóru örugglega 40 ferðir bara í dag. Við Inga náðum að skjótast tvisvar í stólalyftunna, sem var ósköp notalegt því ég get vanalegast lítið sinnt henni í brekkunni þar sem strákarnir þurfa stöðuga gjörgæslu. Inga hinsvegar naut góðs af félagskap Eymundar og Lilju, elti þau á röndum um allar trissur og lærði heilmikið af því. Á meðan öllu þessu stóð þjónaði Sigga mörgum hlutverkum; hún tók myndir, gætti fatnaðar, leit eftir drengjum og margt fleira.

Við gistum hjá Birgit, Tóta og börnum, eða réttara sagt gistum við án Birgit, Tóta og dóttur, því aðeins strákarnir voru heima. En það var nú í fínu lagi. Niels var alger herramaður að vanda, jós úr viskubrunni sínum (drengurinn er gangandi alfræðiorðabók!) en átti pínu erfitt með að gúddera lítinn, bardagaglaðan fjögurra ára gamlan mann.

Æi, mikið er ég fegin að ég spanderaði í þessi skíði hérna um daginn.

Eymundur Ás og Lilja á hvínandi ferð. Ekki er hægt að segja að drengnum leiðist.


Þessar myndir tók Sigga á laugardeginum, þetta var ein síðasta ferð Gunnars með mömmu sinni.


Eymundur Ás á töfrateppinu að næla sér í snjó.


Hið stórmagnaða töfrateppi með innbyrðis Gunnar grallara og Íris tískufrömuð. Þessi er örugglega tekin rétt áður en ég fór úr úlpunni og spókaði mig beraxla í ullarvestinu. Sú hegðun uppskar nokkurt gláp og vott af sólarbruna (ég veit, Sigríður!)


Eftir skíði skruppum við öll í sund og eftirá gláptum við á endurnar hjá lauginni.

7. mars 2008

Hann á afmælídag!

Nú eru heil sex ár síðan ég kom stóru höfði Davíðs í heiminn með hjálp góðrar ljósmóður og lyfja.

Í dag héldum við svo upp á daginn með öllum strákunum á stóru deildinni - 2002 og 2003 árganginum - sem og frændfólki og fáeinum fleirum. Eitthvað var mikið að gera því ég tók bara hreyfimynd af afmælisveislunni sjálfri, sem er skömm því allir 16+ gestir mættu í búningum! Hér eru allavega fáeinar myndir af frábærlega vel heppnuðu afmæli þar sem enginn meiddi sig, engir rifust og ekkert brotnaði. Það helltist ekki einu sinni niður!

Davíð í nýju náttfötunum frá Kárabörnum, með Magnúsi Árna leikskólafélaga.

In aksjón. Þeir fremstu kubbuðu tæknilegó á meðan hinir voru í sínum eigin heimi.

Uhhh, Bubbi sjóspæder?
Sigga og börnin hennar tvö
Góði drekinn, eins og Þórgunnur sagði.

3. mars 2008

Lumbrað og lamið


Fór með börnin á bíó eftir yndislega skíðaferð í Tindastólinn. Sáum Ástrík og Steinrík sem fóru á Ólympíuleikanna. Það var lán í óláni að Inga varð heiftarlega veik með háan hita og hálsbólgu, því okkur Davíð blöskraði svo ofbeldið! Það er bara ekki það sama að sjá fólk lúskrað og lamið og kýlt í loft upp þegar það er alvöru. Miklu betra að sjá teiknimyndapersónur lenda í svona útistöðum. Við Davíð vorum dauðfegin að fara út í hléinu en Gunnar sagði uppáhaldssetninguna sína "mér er sama, mér finnst myndin flott!"


Inga er ennþá slöpp - hiti, hausverkur, hálsbólga. Blessað barnið vinnur hörðum höndum við að koma sér upp glæra lúkkinu.

1. mars 2008

Ó, hún Drífa mín!

Við börnin erum komin heim. Börnin sofnuð og ég sest fyrir framan tölvuna. Einar líklegast rétt að syngja lokalögin fyrir Egilsstaðabúa og á eftir ferðalagið heim í nótt.

Við Drífa nágrannakona mín með meiru, héldum matarveislu í Mannlausa Klúbbnum okkar, þ.e. þegar menn okkar að heiman í kórferðalagi og við eldum eitthvað svínslega gott sem inniheldur a.m.k. mikinn hvítlauk. Drífa er ein af þeim konum sem ég hef óbilandi matarást á. Í kvöld bauð Drífa í eftirfarandi rétti:
  • ofnbakaðan kjúkling með barbekjúsósu
  • 40 hvítlauksgeira kjúkling (nahamm!)
  • sætar kartöflur og fleira grænmeti steikt í balsam ediki (úúúh)
  • spínat með hvítlauk, rúsínum og ristuðum furuhnetum (ahhhh)
  • ofnsteiktum kartöflum
  • tómatsalati með allskyns lauk, papriku, feta og sólþurrkuðum tómötum (slurp)
  • piparostasósu með miklu soði úr hvítlaukskjúklingnum (slu-u-urrrrp)
  • Í eftirmat: ís með volgri mars-súkkulaðisósu (spring!)

Já, ég er eins og kópafull urta á sólarströnd eftir kvöldið. Ég hlýt að sjá til gólfs þegar líður á næstu viku.