12. nóvember 2007

Börn börn börn

Suma daga þegar mann langar helst að kyrkja léttilega þriðja hvern nemanda, skilur maður ekki hvernig í Guðmundi maður lenti í kennslu. Ég sem var yfirlýstur anti-kennari frá 8 ára aldri síðan Hreiðar Stefánsson reyndi að fá bekkinn til að ganga hljóðlega niður stóra stigann í Langholtsskóla en tókst ekki. Og ef honum tókst ekki svona verk þá gæti ég það tæpast. En hvað gerist? Orðin kennari um þrítugt og reyti of oft andlegt hár mitt af þreytu yfir þessum ormum. En svo birtist brosandi andlit sjö ára drengs, þessa sem byrjaði svo leiðinlega í haust með uppsteyt og stæla - og segist ætla að teikna handa mér fallega mynd, hvað vilji ég fá? Bræðir mitt litla steinhjarta.

Kannski fá þessir greyið nemendur mínir stundum að finna fyrir pirringi sem á rætur sínar að rekja til minna eigin barna og fjölskyldumeðlima. Á þeim stundum styð ég heils hugar orð Margrétar Pálu, Hjallastefnufrumkvöðuls, að gott væri að geta hringt í skólann á slæmum dögum og sagt, fyrirgefðu en ég bara get ekki kennt í dag, ég er eitthvað svo geðvond og vil alls ekki láta það bitna á börnunum!

Engin ummæli: